Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Forsiða

Hugtakalisti

Orðalisti yfir lykilhugtök

Listi yfir hugtök námskrár í stafrófsröð

Aðalnámskrá

Námskrá, gefin út af yfirvöldum menntamála, sem kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á landsvísu. Aðalnámskrá útfærir nánar ákvæði laga um námsgreinar og námssvið, og segir til um áherslur og vægi. Aðalnámskrá er stjórntæki til að fylgja eftir ákvæðum laga um skólastarf og er ætlað að samræma nám og kennslu að því marki sem þörf er talin á. Aðalnámskrá er hin opinbera stefna, skólanámskrá byggir á aðalnámskrá og er löguð að stefnu hvers skóla, bekkjarnámskrá byggir á aðalnámskrá og skólanámskrá og gildir fyrir hvern bekk eða námshóp.

Grunnþættir menntunar

Gildi eða viðhorf á ákveðnu sviði sem ætlað er að vera undirliggjandi í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag, og koma fram í inntaki námsgreina jafnt sem námssviða. Grunnþættirnir eiga sér stoð í löggjöf og alþjóðlegum samningum um menntun, velferð og mannréttindi.

Hæfni

Hugtakið hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu og leikni. Hæfni sem stefnt er að í upphafi er skilgreind til að leggja grunn að heildstæðri almennri menntun. Hæfni er nemendamiðuð, hæfni er útfærð innan hvers námssviðs og námsgreinar.

Hæfniviðmið

Sú hæfni sem nemanda er ætlað að hafa náð tökum á við lok tiltekins námstímabils.

Leiðsagnarmat

Námsmat sem hefur þann megintilgang að veita nemendum endurgjöf til þess að þeir geti bætt árangur sinn á grundvelli matsins.

Leikni

Leikni er bæði vitsmunaleg og verkleg. Hún felur í sér að geta beitt aðferðum, verklagi og rökréttri hugsun.

Lykilhæfni

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla byggist lykilhæfni á grunnþáttum menntunar og áhersluþáttum grunnskólalaga. Lykilhæfni snýr að nemandanum sjálfum, er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans og tengist öllum námssviðum.

Matskvarði

Kvarði, t.d. settur fram með tölum eða bókstöfum, og notaður er til að meta hversu vel nemendur hafa náð ákveðinni þekkingu, leikni, skilningi og færni við lok námsáfanga.

Matsviðmið

Matsviðmið eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu við lok námstímabils. Matsviðmið styðja við námsmat.

Námshæfni

Námshæfni byggist á áhugahvöt og trú nemenda á eigin getu og felur í sér að þekkja eigin styrkleika og veikleika og vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni.

Námsmarkmið

Markmið, sem stefnt er að í námi.

Námsmat

Mat á árangri nemenda í námi sem skipulagt hefur verið með hliðsjón af aðalnámskrá út frá hæfniviðmiðum.

Sjálfsmat

Þegar nemandi metur á gagnrýninn hátt eigin verk með hliðsjón af hæfniviðmiðum. Sjálfsmat er annað og meira en að gefa sjálfum sér einkunn fyrir verkefni. Það felur í sér að hugsa um sjálfan sig sem námsmann.

Skólanámskrá

Námskrá sem gefin er út í einstökum skólum og er nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu skóla.

Viðmiðunarstundaskrá

Skrá sem stjórnvöld gefa út um fjölda kennslustunda í námsgreinum eða á námssviðum grunnskóla miðað við árgang eða aldursstig, sem ætlast er til að fylgt sé í skólastarfi.

Þekking

Fræðilegt og hagnýtt safn staðreynda, lögmála, kenninga og aðferða.