Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Stuðningsefni

Mat og vitnisburður

Áherslur í námskrá

Náms- og kennsluskipulag.

Forsiða

Matsviðmið og einkunnagjöf með kvarða

Matsviðmið og einkunnagjöf með kvarða

Matsviðmið sem sett eru fram í aðalnámskrá eru lýsing á hversu vel nemandi hefur hæfni á valdi sínu. Matsviðmiðin greina hve djúpt og vel nemandi hefur öðlast þá hæfni sem stefnt er að: framúrskarandi hæfni, góða hæfni, sæmilega hæfni og hæfni sem ekki nær hæfniviðmiðum.

Í námskránni eru matsviðmið sett fram bæði fyrir námssvið og lykilhæfni við lok grunnskóla. Hæfni er metin innan hvers námssviðs. Hvert námssvið getur spannað eina eða fleiri námsgreinar. Lykilhæfni er metin í fimm þáttum.

Í aðalnámskrá 2011 er í fyrsta sinn sett fram af hálfu menntayfirvalda ákvæði um það með hvaða hætti einkunnagjöf skuli vera við lok grunnskóla.

Nota á sex þrepa kvarða með einkunnunum A, B+, B, C+, C og D. Lýsingar á matsviðmiðum standa á bak við einkunnirnar A, B og C. Ekki eru sett fram matsviðmið fyrir B+ og C+ heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C+. A þýðir þannig ekki að nemandinn hafi getað t.d. 80% af verkefninu eða prófinu heldur að hann hafi getað leyst þau verkefni eða prófhluta sem kölluðu á flóknari hæfni en hin.

Dæmi um matsviðmið fyrir 10. bekk, erlend tungumál
A

Nemandi getur sýnt fram á að hann skilur mjög vel og getur nýtt sér talað mál um almenn málefni í aðstæðum sem hann þekkir. Hefur tileinkað sér mjög fjölbreyttan orðaforða og getur fyrirhafnarlítið lesið sér til gagns og ánægju almenna texta af ýmsum toga um margvísleg málefni. Er mjög vel samræðuhæfur, beitir eðlilegu máli, framburði, áherslum og hrynjandi af öryggi. Notar markvisst algeng föst orðasambönd úr daglegu máli og getur tjáð sig lipurlega og áheyrilega um málefni sem hann þekkir. Getur skrifað skýran og skilmerkilegan samfelldan texta um efni sem hann þekkir, fylgt af öryggi reglum um málnotkun og hefðir varðandi uppbyggingu texta og hagnýtt sér markvisst þann orðaforða sem unnið hefur verið með. Sýnir fram á að hann þekkir mjög vel til mannlífs og menningar á viðkomandi málsvæði og gerir sér mjög góða grein fyrir hvað er líkt eða ólíkt hans eigin aðstæðum.

B

Nemandi getur sýnt fram á að hann skilur vel og getur nýtt sér talað mál um almenn málefni í aðstæðum sem hann þekkir. Hefur tileinkað sér nægilega góðan orðaforða til að geta lesið sér til gagns og ánægju almenna texta af ýmsum toga um margvísleg málefni. Er vel samræðuhæfur, beitir eðlilegu máli, framburði, áherslum og hrynjandi. Notar algeng föst orðasambönd úr daglegu máli og getur tjáð sig nokkuð áheyrilega um málefni sem hann þekkir. Getur skrifað lipran, samfelldan texta á um efni sem hann þekkir, sýnt fram á góð tök á orðaforða og meginreglum málnotkunar, fylgt hefðum varðandi uppbyggingu og samhengi texta og notað tengiorð við hæfi. Þekkir vel til mannlífs og menningar á viðkomandi málsvæði og gerir sér góða grein fyrir hvað er líkt eða ólíkt hans eigin aðstæðum.

C

Nemandi getur sýnt fram á að hann skilur sæmilega vel og getur nýtt sér talað mál um almenn málefni í aðstæðum sem hann þekkir. Hefur tileinkað sér viðunandi orðaforða til að geta lesið sér til gagns og ánægju, með nokkurri fyrirhöfn þó, almenna texta af ýmsum toga og um margvísleg málefni. Er sæmilega samræðuhæfur og beitir reglum málsins, framburði, áherslum og hrynjandi á viðunandi hátt og kann að nota algengustu föstu orðasamböndin úr daglegu máli og getur tjáð sig sæmilega um málefni sem hann þekkir. Getur skrifað samfelldan texta um efni sem hann þekkir, fylgt grunnreglum um málnotkun og helstu hefðum varðandi uppbyggingu texta og hagnýtt sér þann orðaforða sem unnið hefur verið með, sýnt fram á að hann þekkir til mannlífs og menningar á viðkomandi málsvæði og gerir sér grein fyrir hvað er líkt eða ólíkt hans eigin aðstæðum.

Matsviðmiðin sem lýst er í B eru byggð á lýsingu á hæfniviðmiðum sem stefnt er að við lok 10. bekkjar fyrir allar námsgreinar og í íslensku, stærðfræði og erlendum tungumálum fyrir 4. og 7. bekk. Framsetning þeirra er þannig að gera má ráð fyrir að þorri nemenda nái þeirri hæfni sem þar er tilgreind. Hér beinist athyglin að því hvað nemandinn gerir með það sem hann kann og getur.

Kvarðinn lýsir að hve miklu leyti nemandi hefur tök á viðkomandi hæfni. Bókstafirnir eru skammstöfun fyrir orðaða lýsingu á hæfni sem á að fylgja með í vitnisburði. Ekki eru sett viðmið fyrir D því gera má ráð fyrir að sá vitnisburður sé notaður þegar nemandi uppfyllir ekki þau viðmið sem lýst er í C og skóli geri þá sérstaka grein fyrir stöðu viðkomandi nemanda í vitnisburði sínum.

Hæfni nemenda sem fá D er fjölbreytt og erfitt að setja niður eina ákveðna lýsingu á henni. Fyrir D eiga kennarar að skrá hæfni nemanda út frá því hæfniviðmiði sem liggur til grundvallar matinu. Mikilvægt er að skrá hvað nemandi getur og gerir, ekki hvað hann getur ekki eða gerir ekki.

Þennan matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda úr 10. bekk. Skólar ákveða, að öðru leyti, hvernig þeir haga námsmati og einkunnagjöf eða vitnisburði nemenda í öðrum árgöngum. Vitnisburður við lok grunnskóla er hafður til hliðsjónar við innritun nemenda í framhaldsskóla og val á námsbrautum og þarf að lýsa hæfni nemanda svo nám hans í framhaldsskóla verði í samfellu við grunnskólanámið og taki mið af hæfni sem hann hefur þegar öðlast.

Gera skal grein fyrir námsmatsviðmiðum og matskvarða í skólanámskrá þannig að nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar. Þeir sem í hlut eiga; nemendur, foreldrar, kennarar og annað starfsfólk skóla, þurfa allir að geta skilið niðurstöður námsmats á svipaðan hátt. Það er forsenda þess að unnt sé að nýta upplýsingarnar til að bæta nám og kennslu.

Mikilvægt er að hafa í huga að ekki er ætlast til þess að mati á hæfni nemenda sé safnað saman í námsferlinu yfir skólaárið né að meðaltal sé tekið af því og það nýtt sem mælikvarði á þá hæfni sem nemandinn getur sýnt við lok námstímans. Mat á hæfni sem fram fer yfir skólaárið fylgir nemendum en er ekki hluti af lokamati sem lokaeinkunn ræðst af við lok skólaársins. Lokaeinkunn við lok skólaárs ræðst af þeirri hæfni sem þá er metin (lokamat) og nemandi sýnir á þeim tímapunkti.