Mat og vitnisburður
Áherslur í námskrá
Náms- og kennsluskipulag.
Forsiða
Grunnþættir menntunarÍ aðalnámskrá eru settir fram sex áhersluþættir í skólastarfi sem líta má á sem grunnþætti menntunar. Þessir grunnþættir snúast um áherslur sem allt skólastarf á öllum skólastigum á að hverfast um. Grunnþættirnir mótast af innlendum lögum og menntastefnu sem og alþjóðlegum samningum og stefnumörkun á sviði menntunar.
Grunnþættir menntunar eru settir fram sem leið stjórnvalda til að beina sjónum sérstaklega að þáttum sem mikilvægt er að huga að í skólastarfi nútímans sem leitast við að mennta til framtíðar.
Námskráin setur fram námsgreinabundnar áherslur þar sem gerð er grein fyrir þeirri hæfni sem æskilegt er að nemandi búi yfir að lokinni grunnskólagöngu. Með framsetningu grunnþáttanna er lögð áhersla á að einstaklingar þurfi að búa yfir víðtækari hæfni en þeirri sem skilgreind er beint innan námsgreina.
Sex grunnþættir eru skilgreindir í aðalnámskrá: heilbrigði og velferða, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, læsi, sjálfbærni og sköpun.
Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um framtíðarsýn og getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það.
… Þeir eru samfélagsmiðaðir þar sem þeim er ætlað að stuðla að auknu jafnrétti og lýðræði og að vinna að því að samfélagið fái vel menntað og heilbrigt fólk, bæði til þátttöku í að breyta samfélaginu til betri vegar og til þeirra starfa sem unnin eru í samtímanum.
Grunnþættir menntunar eiga að birtast í vinnubrögðum allra sem starfa í skólum og starfsumhverfi barna og ungmenna þar á að mótast af grunnþáttunum. Í námskránni er mikilvægi þeirra vel rökstutt og á hvern hátt þeir tengjast innbyrðis.
Fjöldi þjóða hefur sett grunnþætti og lykilhæfni (core skills, core foundations) í námskrár sínar og ætlast til að þessar áherslur séu á ábyrgð allra sem við skólana starfa, ekki bara kennara eða ákveðinna námsgreina. Misjafnt er hvaða áherslur um er að ræða en allar eiga það sameiginlegt að snúa að hæfni sem álitin er einstaklingum mikilvæg í síbreytilegum heimi.
Hverjum grunnþætti hefur verið gerð skil í sérstöku hefti þar sem koma fram hugmyndir um tengsl grunnþáttar við nám og kennslu og almennt skólastarf.
Ritið Heilbrigði og velferð fjallar um hvernig efla má heilbrigði og stuðla að velferð og vellíðan í skólastarfi. Áhersla er lögð á jákvæða og raunsanna sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, andlega vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilning á eigin tilfinningum og annarra.
Í ritinu Jafnrétti er fjallað um jafnréttismenntun á öllum skólastigum og hvernig skapa má tækifæri í skólastarfi fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum í anda umburðarlyndis og jafnréttis.
Í ritinu Lýðræði og mannréttindi er lögð áhersla á að í skólastarfi þurfi að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að í starfsháttum skóla sé borin virðing fyrir manngildi hvers og eins sem og mannréttindum.
Ritið Læsi fjallar um læsi í viðum skilningi.
Ritið Sjálfbærni fjallar um menntun til sjálfbærni sem miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags.
Ritið Sköpun fjallar um skapandi starf í skólum og hvernig sköpun fléttast saman við og styður allar námsgreinar.