Mat og vitnisburður
Áherslur í námskrá
Náms- og kennsluskipulag.
Forsiða
LeiðsagnarmatÁhersla aðalnámskrár grunnskóla á leiðsagnarmat kemur skýrt fram bæði þegar fjallað er um námsmat almennt og einnig í umfjöllun um greinasvið.
Kennarar þurfa að hjálpa nemendum til raunhæfs sjálfsmats, gera þeim grein fyrir markmiðum náms og hvernig miðar í átt að þeim. Leggja skal áherslu á leiðsagnarmat þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér náminu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu.
Hugtakið leiðsagnarmat hefur verið skilgreint á fjölbreytta vegu og komið hafa fram fleiri hugtök til að að lýsa því sem felst í þeirri námsmenningu að nemendur geri sér grein fyrir stöðu sinni með hliðsjón af markmiðum náms og ígrundi með kennara leiðir til að ná þeim. Ákveðin þróun hefur verið frá því að tala um leiðsagnarmat í leiðsagnarnám, þar sem hlutverk nemandans er meira í brennidepli við að gera sér grein fyrir stöðu sinni í námi. Hér verður hugtakið leiðsagnarmat notað þar sem það kemur fyrir í aðalnámskrá.
Leiðsagnarmat er námsmat sem hefur þann megintilgang að veita nemendum endurgjöf er leiðir til þess að þeir geti bætt árangur sinn á grundvelli matsins.
Námsmat sem eflir nám byggist á því að nemendur viti hvert eigi að stefna og fái leiðsögn hvernig sé hægt að komast þangað. Mikilvægt er að nemendur taki virkan þátt með ígrundun um stöðu sína í námi og kennarar þurfa að laga kennslu að niðurstöðum mats.
Mat hefur leiðsagnargildi ef litið er til vísbendinga um árangur nemenda. Kennarar, nemendur og samnemendur túlka svo vísbendingarnar og nýta þær til að taka ákvarðanir um næstu skref í náms- og kennsluferlinu. Með þessu eru ákvarðanir um nám og kennslu líklegri til að vera betri eða betur undirbyggðar en þær ákvarðanir sem teknar hefðu verið án vísbendinganna sem leiðsagnarmatið byggði á (Black og Wiliams, 2009).
Hægt er að nota mat bæði sem leiðsagnarmat og lokamat. Það sem greinir á milli er hvað gert er með matið.
Kennari leggur fyrir próf og skráir árangur nemenda. Ef annað er ekki gert með matið er hér um að ræða lokamat ekki leiðsagnarmat. Samt sem áður getur niðurstaðan úr prófinu gefið kennara vísbendingar sem hann getur notað til leiðsagnar um hver staða nemenda er og hvar þörf er á frekari stuðningi. Þannig getur sama matið bæði þjónað sem lokamat (sagt til um stöðu nemenda í tilteknum þáttum námsins) og leiðsagnarmat (sagt til um hvaða skref æskilegt er að taka næst í kennslunni og námsferlinu). Sumar matsaðferðir getur verið heppilegt að nota í leiðsagnarmati en aðrar eru nýtilegri til lokamats.
(í skilgreiningu Black og Wiliams)
Myndband | What Makes Great Teaching?
Tímalengd myndbands: 47 mínútur.
Í myndbandinu sitja John Hattie og Pasi Sahlberg fyrir svörum í umræðuþætti um skólamál undir yfirskriftinni: Hvað er góð kennsla?
Eftir áhorfið væri hægt að mynda 3-6 manna umræðhópa og ræða saman um efni myndbandsins. Hver hópur velur og skráir á þrjú blöð jafn mörg atriði sem þátttakendum finnst mikilvægt að einkenni kennara í skólanum þeirra. Í framhaldinu þarf að skilgreina með hvaða hætti einkennin eru sýnileg. Atriðin þurfa ekki eingöngu að tengjast myndbandinu.
Myndband | How Great Leaders Inspire Action.
Tímalengd myndbands: 19 mínútur.
Simon Sinek fjallar um með hvaða hætti góðir leiðtogar geta með því að notað „gullna hringinn“ og spurninguna „af hverju?“
Eftir áhorf væri hægt að mynda 3-6 manna umræðuhópa.
Gullni hringurinn vinnuskjal til útprentunar.
Við skipulagningu árangursríkrar kennslustundar er mikilvægt að hæfniviðmið og markmið séu skýr fyrir kennara og nemendum og að fyrir liggi hvað felist í innlögn, vinnu nemenda og samantekt kennslustundar að henni lokinni til þess að ná markmiðum kennslustundarinnar.
Hér er tengill í kennslustundaskipulag sem getur komið sér vel við skipulagningu kennslustundar.
Hverjir eru mikilvægir þættir í starfi kennarans?
Sjálfsmat er það nefnt þegar nemandi metur á gagnrýninn hátt eigin verk með hliðsjón af hæfniviðmiðum sem fyrir liggja vegna verkefnis sem unnið er. Sjálfsmat getur farið fram meðan verkefni er unnið eða við lok áfanga. Það getur einnig verið tengt jafningjamati. Sjálfsmat er annað og meira en að gefa sjálfum sér einkunn fyrir verkefni. Það felur í sér að hugsa um sjálfan sig sem námsmann. Þetta þarf að læra og er færni sem þarf að þjálfa. Jafningjamat eða félagamat þarf einnig að læra og þjálfa. Til að það þjóni tilgangi sínum þurfa nemendur að læra hvernig gefa á uppbyggjandi endurgjöf, annars getur matið verið meiri hindrun en örvun. Leið sem farin er til að efla traust milli nemenda er að hafa námsfélaga, annaðhvort tvo eða fleiri, sem eru hópurinn sem nemandi leitar til og vinnur með við jafningjamatið.
Sjálfsmat og jafningjamat tengt markmiðum er talið einn mikilvægasti þátturinn í leiðsagnarmati.
Mikilvægt er að ræða við nemandann um námsframvindu og spyrja réttu spurninganna til þess að geta brugðist við stöðu hans og veitt endurgjöf, í framhaldinu, sem nýtist nemandanum sem best til að ná námsmarkmiðum. Árangursrík og vönduð endurgjöf er veitt tímanlega í námsferlinu, jafnt og þétt. Hún er sértæk og beinist að viðfangsefninu og úrlausnarferli þess. Hún er skýr og uppbyggileg og hjálpar nemandanum að skilja hvar hann er staddur m.t.t. námsmarkmiða og viðmiða og felur í sér leiðir fyrir nemandann til að ná árangri.
Myndband | Formative assessment overview.
Tímalengd myndbands: 01:41 mínúta.
Myndbandið er einföld lýsing á leiðsagnarmati og hvernig nemendur ættu að vera þau sem vinna mest í tímanum. Efnið gæti verið góð kveikja að umræðum kennara um hvers vegna leiðsagnarmat/nám er mikilvægt og hvernig kennarar geta stuðlað að aukinni hlutdeild nemenda í námi sínu.
Myndband | Lærdómsgryfja James Nottingham.
Tímalengd myndbands: 2:09 mínútur.
Í myndbandinu er fjallað um lærdómsgryfju James Nottingham en skilningur á henni getur hjálpað kennurum að efla námsvitund nemenda.
Megin tilgangur leiðsagnarmats eða leiðsagnarnáms eru sjálfstæðir og ábyrgir nemendur sem eru drifnir áfram af innri áhugahvöt en þannig aukast m.a. líkur á góðum árangri þeirra í náminu. Nemendastýrð viðtöl með forsjáraðilum geta verið afar valdeflandi og undirstrikað áhrif og ábyrgð nemenda á eigin námi.
Skipulag nemendastýrðra viðtala með forsjáraðilum tekur eðlilega mið af þroska og reynslu nemenda. Viðtölin þarf að undirbúa vel svo öllum nemendum sé ljóst hvaða væntingar séu gerðar til þeirra. Hugsanlega nægir yngstu nemendunum að kynna einn til tvo áhersluþætti í náminu t.d. læsi og samskipti. Með hverju árinu má svo bæta við fleiri námsgreinum og/eða áhersluþáttum. Samræður nemenda og kennara um það sem ætti að einkenna gott viðtal eru nauðsynlegar en í kjölfarið mætti útbúa viðmið fyrir viðtal með forsjáraðilum. Nemendur ættu sjálf að skrifa undir fundarboð til forsjáraðila, fá tækifæri til að velja viðeigandi gögn til að sýna á fundinum og undirbúa kynninguna t.d. með námsfélaga. Öll gögn þurfa að vera til staðar fyrir fundinn og búið að fara yfir markmið og skipulag fundarins.
Tilgangur fundarins gæti verið sá að nemandi geri forsjáraðilum sínum grein fyrir þeim markmiðum sem barnið stefnir að, hvar það er statt í tiltekinni námsgrein/um eða áhersluþáttum og hvað það þurfi að gera til að brúa bilið þar á milli. Kennari heldur sig til hlés meðan á kynningu nemandans stendur, grípur aðeins inn í ef nauðsynlegt er og svarar spurningum sem beint er til hans. Forsjáraðilar fá tækifæri til að spyrja barnið út í námið, sjá dæmi um framfarir og ræða málin. Hugsanlega geta forsjáraðilar bent barninu á lausnir sem gætu falist í aðstoð heima fyrir. Nemandinn getur einnig gengið með forsjáraðilum sínum um stofuna eða skólann til að sýna þeim fleiri verkefni.
Þegar kynningu nemandans er lokið tekur kennari við. Eftir því sem nemendur þroskast og reynsla þeirra eykst bætast fleiri námsgreinar og áhersluþættir við en hlutverk kennarans er fyrst og fremst fólgið í því að undirbúa nemendur fyrir markvisst samtal og vera til staðar á fundinum.
Í vinnslu – Hér kemur texti
Nanna Kristín Christiansen. (2021). Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? Reykjavík. Nanna Kristín Christiansen Wiliam, D. og Leahy, S. (2015). Embedding Formative Assessment. West Palm Beach: Learning Sciences International.
Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit, sed do eiusmod tempor incididunt ut labore et dolore magna aliqua.
Myndband | Developing a Growth Mindset
Carol Dweck
Tímalengd myndbands: 09:37 mínútur.
Um myndbandið
Carol Dweck svarar spurningunni um hvort orðið við ættum að nota, hæfileikarík eða klár, í samtali við börnin. Hún fjallar jafnframt um vinnu sína við að gera hugarfari hátt undir höfði og kraftinum í orðin „enn þá“ við að hjálpa nemendum að ná árangri innan og utan kennslustofunnar.
Myndband ætlað nemendum | Vaxandi hugarfar
Tímalengd myndbands: 02:35 mínútur.
Um myndbandið
Myndband um hugarfar fyrir nemendur og gildi þess að gefast ekki upp.
Myndbandið/Teiknimyndin er á ensku en hægt er að velja að fá íslenskan texta, með því að:
1 kveikja á skjátextar neðst í myndbandi.
2 velja hjólið neðst í myndbandi. Velja skjátextar – velja þýða sjálfvirkt, velja íslenska.
Myndband ætlað nemendum | Sannleikurinn um heilann, nám og vaxandi hugarfar
Teiknimynd á ensku en hægt er að velja að fá íslenskan texta[ABÓ1] .
Tímalengd myndbands: 03:12 mínútur.
Um myndbandið
Teiknimyndapersóna fer með áhorfendum í gegnum hvað gerist í heilanum þegar hann lærir.
Myndbandið/Teiknimyndin er á ensku en hægt er að velja að fá íslenskan texta, með því að:
1 kveikja á skjátextar neðst í myndbandi.
2 velja hjólið neðst í myndbandi. Velja skjátextar – velja þýða sjálfvirkt, velja íslenska.
Myndband | Námsfélagar – Upplifun kennarans
Tímalengd myndbands: 01:22 mínúta.
Um myndbandið
Unglingastigskennari lýsir því hvernig hann nýtir námsfélaga til að hjálpa nemendum að ræða hugmyndir sínar.
Myndband | Púslaðferðin – The Jigsaw Method
Tímalengd myndbands: 06:23 mínútur.
Um myndbandið
Greint er frá púslaðferðinni en aðferðin er til þess fallin að hvetja til aukinnar þátttöku í samvinnuverkefnum og skila sér í betra námi.
Mikilvægur þáttur í kennslu er að kunna að spyrja spurninga. Hér eru spurningar sem Will Ord sérfræðingur í heimspeki nemenda mælir með að nota í námi og kennslu.
Útskýring (yfirborð)
Ástæður og sannanir
Afleiðingar
Skoða önnur sjónarhorn
Aðferðin engar hendur upp er mikið notuð í leiðsagnarnámi í þeim tilgangi að hvetja alla nemendur til að hugsa um ákveðið málefni eða spurningu. Allir kennarar kannast við það að oftast eru það sömu nemendur sem rétta upp hönd til að svara spurningum þeirra. Hinir nemendurnir í bekknum vita þetta líka og taka ekki spurningarnar til sín, það eru hvort sem er aðrir sem svara þeim.
Markmið með aðferðinni engar hendur upp er að fá alla nemendur til að hugleiða spurningu eða viðfangsefni sem varpað er fram. Nemendur fá svo t.d. 30-60 sek. til að hugsa sig um eða t.d. 2 mínútur til að ræða við námsfélaga sinn og finna lausn á viðfangsefninu. Að umræðu- og umhugsunartíma loknum er nafn nemanda dregið og er sá sem dreginn er út beðinn um að segja frá sínu svari. Ef sá sem beðinn er um að svara veit ekki svarið eða treystir sér ekki til að svara getur hann óskað eftir að fá að tala við vin (ræða spurninguna við sessunaut sinn) eða spyrja nemendahópinn (þá dregur kennarinn nýtt nafn). Þegar rétta svarið er fengið er gengið úr skugga um að nemandinn, sem upphaflega var spurður, sé sammála svarinu.
Í mögum skólum, sem nota aðferðina engar hendur upp, tíðkast að skrifa nöfn hvers nemanda á tréspaða. Kennari getur t.d. látið spaðana standa í krukku og dregið einn spaða þegar velja þarf nemanda. Einnig má skrifa nöfnin á spjöld, nota þar til gerð forrit eða jafnvel útbúa skífu með vísi sem hægt er að snúa. Þegar nafn hefur verið dregið er það sett aftur í safnið, til að tryggja að allir hugsi um næstu spurningar sem lagðar eru fram.
Löng hefð er fyrir því að sessunautar vinni saman eða hjálpist að í einstökum verkefnum. Það sem er frábrugðið hinum hefðbundna skilningi á samvinnu sessunauta og því sem Clarke og fleiri kalla „talk partners“ eða „learning partners“ er áherslan á vel skilgreinda samræðu.
Hlutverk námsfélaga er að ræða saman um námið og skipuleggja það saman. Þannig auka þau í sameiningu gæði náms hvors annars (Clarke, 2012).
Námsfélagar eru valdir tilviljunarkennt, oftast til einnar viku í senn, en tímabilið getur verið breytilegt og er oft lengra hjá eldri nemendum. Námsfélagar eru sessunautar á tímabilinu og ræða saman samkvæmt fyrirmælum kennara. Samræður námsfélaga eru markvissar og tíminn sem nemendur fá til að hugsa og ræða viðfangsefnið eða spurningu kennarans vel afmarkaður. Þannig ætti ekki að geta skapast svigrúm til að fara út fyrir efnið. Um leið þarf tíminn að vera nægilega rúmur til að allir nemendur hafi tök á að hugsa og ræða viðfangsefnið eða spurninguna. Ómögulegt er að fullyrða um hvaða tímalengd henti best. Clarke (2012) gerir ráð fyrir að nemendur þurfi um 30 sekúndur til að velta fyrir sér spurningu, eina mínútu til að bera saman og tvær mínútur til að greina og finna hvað sé rangt í verkefnum, t.d. í stærðfræði. Þegar upp er staðið eru viðfangsefnin misflókin og krefjast þess vegna mislangs tíma. Kennarinn er sá sem færastur er bestur í því að finna út og ákveða tímarammann sem nemendur þurfa til að hugsa um og ræða viðfangsefni og spurningar en tilfinningin fyrir því styrkist með reynslunni.
Fræðimenn (Clarke, 2018; Hattie, 2009; Wiliam og Leahy, 2015) fullyrða að bestur árangur náist þegar nemendur fá tækifæri til að vinna með fjölbreyttum hópi nemenda, bæði þeim sem eru betur og verr að sér í viðkomandi námsgrein. Mælt er með því að nemendur sem hafa takmarkað vald á íslensku fái tvo námsfélaga í einu. Æskilegt er að skipulagið tryggi að allir nemendur fái námsfélaga úr öllum nemendahópnum/bekknum á skólaárinu. Fyrirkomulagið hefur jákvæð félagsleg áhrif og áhrifin á námið eru enn meiri. Samvinna af þessum toga getur því haft jákvæð áhrif á sjálfstraust nemenda. Það sama á við þegar nemendur á ólíkum aldri eru paraðir saman. Almennt upplifa nemendur tilviljunarkennt val námsfélaga sem sanngjarnt, jafnvel þótt stundum heyrast einhverjar neikvæðar raddir til að byrja með. Það hefur komið kennurum á óvart hvað sum pör virka vel, þvert á það sem þeir hefðu að óreyndu álitið. Feimnir nemendur koma út úr skelinni og tjá sig og þeir málglöðu læra að hafa hemil á sér og hlusta. Nemendur læra að sýna þolinmæði og efla samskiptahæfni og félagsfærni sína (Clarke, 2018). Eins og við á um allt sem snýr að námi og kennslu þarf að vera ákveðið svigrúm til staðar, t.d. gæti í vissum tilvikum verið heppilegra fyrir einhverja nemendur að vera skemmri tíma en viku með hverjum námsfélaga.
Nemendur þurfa að þjálfast í að vera námsfélagar
Að vera góður námsfélagi er hæfni sem þarf að læra og æfa áður en hægt er að vænta árangurs. Ein hugmynd er sú að byrja á því að kennari fái til liðs við sig samstarfsaðila og þau sýna nemendum tvær mismunandi útgáfur af því þegar tveir einstaklingar, A og B, ræða saman. Samræðurnar gætu t.d. snúist um sögu sem nemendur þekkja. Í fyrri útgáfu samtalsins koma fram ákveðnir veikleikar; A talar of lágt og horfir niður, B sýnir takmarkaðan áhuga á því sem A segir og grípur fram í o.fl. Gæta þarf þess að atriðið sé ekki svo ýkt að það verði ekki tekið alvarlega. Að atriðinu loknu leitar kennari álits hjá nemendum. Hvernig stóðu þau sig í samræðunum og hvers vegna? Hvað hefðu þau mátt gera betur? Hvað skiptir máli þegar tveir einstaklingar ræða saman og hvað þarf að varast? Tillögurnar eru ræddar og loks eru helstu tillögur skráðar á töflu. Tillögur gætu t.d. verið að þau þurfa að horfa á hvort annað, tala skýrt, hlusta betur á það sem félaginn segir og sýna því áhuga, t.d. með því að kinka kolli eða spyrja, ekki má grípa fram í fyrir þeim sem talar og passa þarf upp á að báðir aðilar fái álíka langan tíma til að tala.
Kennari og samstarfsaðili endurtaka atriðið í samræmi við tillögurnar á töflunni og nemendur fylgjast með. Að atriði loknu spyr kennari aftur hvernig nemendum hafi fundist til takast og hvort enn sé hægt að bæta eitthvað. Lokaniðurstöður nemenda eru skráðar og sammælst um að námsfélagar hafi þær til hliðsjónar. Þannig verða til viðmið fyrir námsfélaga.
Viðmið um námsfélaga
Til að tryggja góðan árangur fylgja námsfélagar viðmiðum. Eins og gefur að skilja eru ekki til ein rétt viðmið fyrir námsfélaga enda eru hóparnir mismunandi, t.d. í aldri. Alltaf fer líka best á því að hópurinn komi sér saman um hvað þurfi að vera til staðar hjá góðum námsfélögum og orði það á sinn hátt. Hér eru dæmi um tvö viðmið fyrir námsfélaga úr bók Clarke (2018, bls. 60–63):
Góðir námsfélagar:
Góðir námsfélagar:
Ef nemendur eru ekki læs ætti einnig að setja viðmið um góða námsfélaga upp myndrænt. Reglulega þarf að rifja viðmiðin upp.
Næsta skref er að námsfélagar fái að æfa sig í samræmi við viðmiðin t.d. með því að:
Kostur er að hafa klukku eða tímavaka sýnilegan. Til að hjálpa nemendum að meta árangur og læra af æfingunni þarf að gefa tækifæri til að ræða reynsluna.
Þegar nemendur eru paraðir við námsfélaga þarf að aðgreina þau á einhvern hátt t.d. sem A og B. Þetta auðveldar fyrirmæli til hópsins t.d. þegar námsfélagar eiga að skiptast á að veita hvort öðru endurgjöf. Þegar tímabili námsfélaga lýkur geta þau notað matsblöð til að meta eigin árangur og árangur námsfélagans. Tilgangur með matinu er alltaf sá að læra og ná betri tökum á hæfninni. Ekki er óalgengt að námsfélagar fylli einnig út þakkarkort og afhendi námsfélaga sínum. Þakkarkort gæti innihaldið texta þar sem þakkað er fyrir samvinnuna, hvað gekk vel og tillaga um hvernig námsfélaginn geti orðið enn betri námsfélagi.
Hvenær vinna námsfélagar og hvers vegna?
Námsfélagar setja sterkan svip á kennslustundir þar sem leiðsagnarnám er notað. Alla jafna er það nokkrum sinnum í hverri kennslustund sem nemendur eru beðin um að snúa sér að námsfélaga sínum. Algengt er að kennari túlki fyrirmælin einnig með handahreyfingu. Um leið og nemendur eru beðin um að snúa sér að námsfélaga sínum setur kennari hendurnar framan við brjóstkassa og lætur fingurgóma beggja handa mætast. Með tímanum geta fyrirmælin stundum orðið orðlaus handahreyfing kennarans. Nemendur fá alltaf að vita af því fyrir fram hversu langan tíma þau hafa til að ræða saman um efnið. Þegar tíminn er liðinn er nafn oftast valið tilviljunarkennt og viðkomandi nemandi beðinn um að svara eða segja frá. Stundum er hann beðinn um að segja frá því hvað námsfélagi hans hafi lagt til málanna eða hvað honum hafi fundist. Þannig er hvatt til þess að nemendur leggi sig fram um að hlusta vel á námsfélaga sinn.
Meginreglan er sú að námsfélagar ræða saman í upphafi kennslustundar, um miðbik hennar og í lokin, en á því geta verið margar undantekningar. Samræður nemenda, áður en verkefnavinna hefst, eiga meðal annars að tryggja að enginn þurfi að rétta upp hönd til að spyrja hvað eigi að gera.
Eftirfarandi dæmi eru um samræður námsfélaga:
Eins og sjá má eru hlutverk námsfélaga vel skilgreind og afmarkast fyrst og fremst við markvissar samræður um fyrir fram ákveðið viðfangsefni, innan tiltekins tímaramma. Samvinna tveggja eða fleiri nemenda og hópavinna af ýmsum toga er einnig mjög algeng í leiðsagnarnámi, en þá eru notuð önnur heiti en námsfélagar og markmiðin og framkvæmdin eru almennt önnur.
Áhrif námsfélaga
Clarke (2012 og 2018) hefur bent á fjölmarga kosti námsfélaga, bæði vitsmunalega og félagslega, sem kennarar hafa greint hjá nemendum sínum að 18 ára aldri. Þegar unnið er með námsfélaga skapast dýrmæt tækifæri fyrir nemendur til að hugsa um námið, til að orða hugsanir sínar og kynnast hugmyndum og reynslu annarra. Sem dæmi má nefna að almennt eiga nemendur mun auðveldara með að skrifa texta eftir að hafa fengið að tala um efnið við námsfélaga, auk þess sem það tekur mun skemmri tíma. Einnig er einfaldara að glíma við stærðfræði þegar búið er ræða verkefnið við námsfélaga og heyra önnur sjónarmið. Námsfélagar geta haft jákvæð áhrif á nemendur á öllum aldri enda þótt væntingar og framsetningin breytist.
Kostir námsfélaga, sem tengjast vitsmunaþroska.
Kostir sem tengjast félagsþroska:
(Clarke, 2012).
(Byggt á: Nanna Kristín Christiansen, 2021).
Heimildir:
Clarke, S. (2012). Active Learning Through Formative Assessment. 6. útgáfa. London: Hodder Education.
Clarke, S. (2018). Outstanding Formative Assessment: Culture and Practice. 10. útgáfa. London: Hodder Education.
Hattie, J. (2009). Visible Learning. A Synthesis of Over 800 Meta-Analyses Relating to Achievement. Oxford: Routledge.
Nanna Kristín Christiansen. (2021). Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? Reykjavík. Nanna Kristín Christiansen.
Wiliam, D. og Leahy, S. (2015). Embedding Formative Assessment. West Palm Beach: Learning Sciences International.
Dweck, C. S. (2006). Mindset The New Psychology of Success. New York: Random House.
Hattie, J. (2009). Visible Learning. A Synthesis of Over 800 Meta-Analyses Relating to Achievement. Oxford: Routledge.
Nanna Kristín Christiansen. (2021). Leiðsagnarnám. Hvers vegna, hvernig, hvað? Reykjavík. Nanna Kristín Christiansen
Kennarar og annað starfsfólk, þar sem það á við, svara matslistanum. Eftir að niðurstöður hafa verið greindar er eðlilegt að draga fram styrkleika skólans og helstu sóknarfæri. Styðjast mætti við niðurstöðurnar þegar gerð er áætlun um þróunarstarf og skoða hvernig viðhalda má og nýta betur það sem vel gengur en finna leiðir til að bæta það sem þarf að bæta.
Eyðublaðið má hafa til hliðsjónar þegar áætlun um þróun leiðsagnarnáms er unnin og henni fylgt eftir.