Námskrár

Stuðningsefni

Leita

Stuðningsefni

Mat og vitnisburður

Áherslur í námskrá

Náms- og kennsluskipulag.

Forsiða

Hæfniviðmið

Hæfniviðmið

Hæfniviðmið

Í aðalnámskrá grunnskóla eru nefnd átta námssvið: íslenska, erlend tungumál, list- og verkgreinar, náttúrugreinar, skólaíþróttir, samfélagsgreinar, stærðfræði og upplýsinga- og tæknimennt. Á hverju námssviði er lýst þeirri hæfni sem stefnt er að hjá nemendum. Þetta eru nefnd hæfniviðmið og eru þau skráð fyrir 4., 7. og 10. bekk í flestum greinum. Þar sem nám í erlendum tungumálum hefst ekki við upphaf grunnskólagöngu líkt og í flestum öðrum námsgreinum, eru hæfniviðmið þar sett fyrir 1., 2. og 3. stig sem lýsa hæfni er nemandi stefnir að eftir fyrsta, annan og þriðja hluta námstímans. Með viðmiðunum eru þannig skráðar vörður á leið til þeirrar hæfni sem stefnt er að því að nemendur búi yfir við lok grunnskóla. Hæfniviðmið eru skráð þannig að flestir nemendur eigi að hafa tileinkað sér þá hæfni sem þar er lýst en nú sem áður geta nemendur farið veginn mishratt og haft hæfnina misvel á valdi sínu.

Dæmi um hæfniviðmið náttúrugreina:
Við lok 4. bekkjar getur nemandi:Við lok 7. bekkjar getur nemandi:Við lok 10. bekkjar getur nemandi:
sagt frá eigin upplifun á náttúrunni og skoðun á lífveru í náttúrulegu umhverfi,lýst reynslu sinni, athugun og upplifun af lífverum í náttúrulegu umhverfi, gert grein fyrir eigin athugunum á lífverum, hegðun þeirra og búsvæðum,
Dæmi um hæfniviðmið list- og verkgreina:
Við lok 4. bekkjar getur nemandi:Við lok 7. bekkjar getur nemandi:Við lok 10. bekkjar getur nemandi:
útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki,unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun, tilraunir og samtal,

Eins og sést á þessum dæmum um hæfniviðmið er hæfni lýst í nokkrum meginþáttum fyrir hvert námssvið og sett fram þannig að þau sýna stigvaxandi hæfni hvers þáttar frá 4. bekk til 10. bekkjar.

Hæfniviðmið segja hvaða hæfni nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Námsgreinar eru hjálpartæki til að ná hæfniviðmiðum. Námsgögn, kennsluaðferðir og vinnubrögð í skólanum sem og skipulag allt á að þjóna þeim hæfniviðmiðum sem stefnt er að.